11.1.2007 | 15:19
Gjörsigraður......
Í gær var þrettándi dagur jóla og við tókum daginn snemma, ég vaknaði með litla gaurnum og fyrsta sem hann segir þegar við komum fram "Apamyndin". Ég gat ekki annað en sett myndina með Curious George í tækið og held ég að hún hafi rúllað tvisvar í gegn áður en við horfðum á jólalestina "Polar Express". Þar með held að ég hafi séð myndina hátt í þrjátíu sinnum. Morguninn fór reyndar í að undirbúa veisluna sem ég ætlaði mér að taka með trompi um kvöldið, hvíla sig og borða frekar hollt til að vega á móti sykrinum sem átti að innbyrða um kvöldið. Litli gaurinn lagði sig í hádeginu og ég og Sonja ákváðum að byrja gleðina aðeins snemma og horfðum á Menace 2 Society eða alla vega þangað til við nenntum ekki að horfa lengur. Verð að viðurkenna að erfitt var að húka inni því hitinn úti var yfir 20 gráður.
Um leið og Kristófer Dagur vaknaði drifum við okkur út og fórum með hann í "park-ið" sem er við vatnið. Þar lékum við okkur saman í góðan klukkutíma, fórum í boltaleik, róluðum og margt fleira. Annars fékk ég mjög undarlega tilfinningu og þá miðað við árstíma. Ég fékk svona hlökkunartilfinningu eins og á sumrin eða á vorin, ég hugsaði nefnilega; ah best að opna ískaldann bjór og grilla þegar við komum heim. Ótrúlegt, það var 6. janúar og ég fékk svona sumarfíling. Þetta veðurfar hérna er alveg að rugla í manni en sem betur þá er þetta bara helvíti nice og kvarta ég ekki undan svona hita. Í dag er svipað veður og ætlum við að gera eitthvað skemmtilegt, en ekki ákveðið hvað.
Þegar við komum heim þá var hafist handa við starta þrettándagleðinni fyrir alvöru. Við ákváðum að prófa nýjan pizzustað, helvíti mikil áhætta þar sem mikið var í húfi. Ekkert má klikka á þessum degi matars og sykurs. Við eigum nefnilega einn uppáhaldsstað en það eru pizzurnar hans Pete´s. Þær eru einu orði sagt klikkaðar, ég á eftir sakna þeirra og pizzanna í New York alveg ótrúlega þegar við flytjum héðan. Annars fundum við stað hérna rétt hjá okkur sem hefur verið að síðan 1978 og ég verð nú að segja að það var ekki hægt að kvarta undan þessari pizzu, að mínu mati þá komst hún helvíti nálægt honum Pétri. Eins og sést á myndinna þá ætlaði ég mér algerlega að sigra þessa pizzu.
Pizzan var mjög góð eins og ég talaði um, ég lét græðgina ekki fara illa með mig og var frekar skynsamur á þessu tímabili. Ég ákvað að taka því aðeins rólegra og safna þreki þangað til góðgætið kæmi á borðið. Á þessu tímabili var leikurinn frekar jafn og ég ætlaði mér að standa uppi sem sigurvegari eftir kvöldið. Loksins hófst leikurinn fyrir alvöru og ég átti einn af mínum bestu leikjum, ég lagði hvern andstæðinginn af öðrum af velli og margir af þeim áttu ekki roð í mig. Ég var búinn að sigra stóran hluta af Nóa Kroppi, sem hafði komið alla leið frá Íslandi til að taka þátt í þessu einvígi. Einnig komu Þristar, Lakkrís og Djúpur með sama flugi en það fór ekki eins mikið fyrir þeim um kvöldið. Það voru nokkrir innlendir aðilar sem voru mótherjar mínir eins og Skittles, Milk Duds, Haribo og Twix. Satt best að segja þá átti ég í mestum vandræðum með Milk Duds, ég vann helvíti marga af þeim en þeir voru bara allt of margir.
Hver kannast ekki við það, sérstaklega þeir sem hafa verið í íþróttum eða keppnum. Þegar þið leggið allt í sölurnar og spilið alveg ógeðslega vel en samt sigrið þið ekki. Í gær þá átti ég einn af mínum bestu leikjum á mínum ferli, ég lagði mig allan fram, var með góðan undirbúning og hugann við leikinn allan daginn og meiri segja í nokkra daga áður. Ég skoraði nokkur falleg mörk og leiddi leikinn lengi en í seinni hlutanum þá átti ég engin svör, var orðinn þreyttur, útþaninn og yfirspilaður. Núna daginn eftir þá er ég að jafna mig eftir gærkvöldið og geri fastlega ráð fyrir því að ég muni fá sykursjokk næstu daga. Ég er búinn að lofa mér og fjölskyldunni að taka ekki þátt í svona einvígum á næstunni og mun líklegast ekki gera það fyrr en næsta þrettánda. Hef einnig lofað mér að taka ekki þátt í minni einvígum á virkum dögum og hef sett mér það markmið að sigra andstæðinga gærdagsins næstu helgi og kannski helgina eftir. Mun líklegast skora þá á hólm næsta laugardag. Í sambandi við sykursjokkið þá verður erfitt að vera án sykurs næstu daga þar sem líkaminn mun eflaust kalla á meira næstu daga en ég ætla mér að vinna það einvígi.
Bið að heilsa.
Arnar Freyr
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.