USA í dag

Seinustu dagar hafa liðið mjög hratt og mikið hefur verið fjallað um atburðina í Virginia Tech. Það er eitt jákvætt við þessar fréttir og það er að það hefur snarlega minnkað umfjöllunina um Önnu N. Smith og hennar atburði. Að öðru leiti er þetta hrikalegt og mitt mat er það að það eigi á stundinni að hætta að fjalla um náungann sem framdi þessi fjöldamorð.

Geðsjúklingar eins og hann fá alls ekki rokkstig, það er nefnilega málið að þeir eru að leita eftir rokkstigum eða þá umfjöllun og athygli. Fólk vill láta minnast sín, það týnist í fjöldanum og leitar leiða til að vekja athygli og notar þá jafn geðveika aðferð og þessa til að láta taka eftir sér. Það eru eflaust mörg þúsund geðsjúklingar eins og hann í USA og í heiminum, þeir sjá alla athyglina sem þessi maður fær og sjá það jákvæða í þessu. Og það er athygli. Þó þetta verði kannski ekki þeirra fyrsta verk til að fá athygli þá munu einhverjir sem eru komnir á ystu nöf nota þessa aðferð til að láta minnast sín. Þannig að hættum að gefa þessum sjúku mönnum athygli eftir svona atburði, þannig að það kennir öðrum að þetta er ekki besta leiðinn til að láta taka eftir sér. Nær væri að segja kannski fyrst frá manninum og svo bara einbeita sér að fórnarlömbunum eða einhverju öðru til að fyrirbyggja að þetta gerist aftur. Ekki tapa sér í að sálgreina greyið og láta allar fréttir vera um hann.

Kveð ykkur í bili.

Arnar Freyr


Flóð og læti

Það er allt að verða brjálað hérna í New York fylki, veðrið er snarklikkað. Rigningin og rokið er það mikið að flóð hefur myndast á mörgum stöðum og ég var að sjá myndir frá stöðum þar sem vatnið var orðið það hátt að það huldi bíla. Það á víst að versna með kvöldinu og svo að róast á morgun en samt verður rigning á morgun og svo á það að hætta einhvern tímann á þriðjudaginn.

Helgin hefur verið mjög skemmtileg, Inga vinkona Sonju og kærastinn hennar hann Finnur eru í heimsókn hjá okkur. Við höfum ekki gert mikið, eða ég og Sonja. Þau fóru á Manhattan í gær og spókuðu sig um, og í dag nutu þau dagsins á Staten Island og fóru í Mallið. Við stefnum á að fara kannski einn dag með þeim til Hattan ef veður leyfir. Við munum fara þangað sem er aðeins rólegri stemmning þá jafnvel í SoHo eða hverfin þar í kring. Við vorum að uppgvöta einn skemmtilegan stað sem er rétt hjá Union Square, en hann heitir Max Brenner og selur allskyns súkkulaði, góðgæti, kakó og þessháttar, en allt er gert úr súkkulaði. Held að það sé eins gott að við búum ekki nálægt þessum stað þá væri maður orðinn eitt súkkulaði.

Núna er ég annars að læra og ákvað að taka mér smá pásu og skrifa nokkrar línur, því ég bara nenni ekki að læra, það er samt spurning hvenær maður nenni því. Hver kannast ekki við allar afsakanirnar til að komast frá lærdómnum, s.s klósettið, ískápurinn, sturtan, en það er nú oftast maturinn sem maður leitar til.

Jæja það er best að koma sér aftur að verki, bið að heilsa.

Arnar Freyr


Stargate

Get nú ekki hrósað veðrinu hér í bæ, skv. öllu þá ætti að vera fínn hiti en því miður fyrir okkur þá bara frekar kalt. Er orðinn hundleiður á kuldanum og langar að fá almennilegan hita. Við erum orðin frekar kuldaleg og hvít svona eins og venjulegir Íslendingar.

Kannski maður fari aðeins aftur í bílferðina, ég nenni ekki alveg að fara út í alla detaila, heldur set ég bara inn símann minn og þú getur bara hringt ef þú vilt vita allt nánar. 646-506-5230. Annan daginn fórum við í Babies R Us og versluðum okkur tvíburakerrur, hrikalega þægilægt að vera komin með kerru fyrir báða gaurana í einu. En það er ekki þar með sagt að það er auðvelt að keyra tröllið, sem ég kýsa að kalla kerruna. Það tekur asskoti mikið á að keyra þetta og frekar erfitt að beygja og þá sérstaklega með svona stóra stráka í farteskinu.

Svo fórum við til Long Island áttum góðan dag þar, nema kannski drengirnir okkur voru ekki alveg að nenna að standa í þessu. Urðum svolítið sveitt og þreytt en allt fór vel. Við versluðum okkur ekkert í þessum ferðum, þar sem ekki er auðvelt að fara í búðir með strákana, þeir vilja frekar vera heima og hafa það gott. Kristófer Dagur var uppgvötaður af modelskrifstofu og vilja þeir fá hann í myndatöku og meiri segja fengum við bréf nokkrum dögum seinna frá annari skrifstofu sem vill líka fá hann. Það er spurning hvort að við reynum ekki bara að koma honum í kvikmyndir og jafnvel að troða Jónatani líka með.

Kveð í bili.

Arnar Freyr


Gleðilega páska!!!

Ég vil byrja á að óska öllum nær og fjær gleðilegra páska. Við höfum átt mjög góða páska, búin að borða svínabóg og páskaegg. Sonja-an okkar eldaði alveg yndislega máltíð fyrir okkur strákana og hökkuðum við matinn í okkur með bestu list.

En eins og ég hef nefnt þá tókum við bílaleigubíl á afmæli mínu, við höfðum hann í þrjá daga. Það má með sanni segja að þessir þrir dagar voru óvenjulegir. Kannski eins og einhverjir kannast við þá er frekar erfitt að rata hérna. Til dæmis tók það okkur fimm klukkutíma að finna Outlet í Central Valley í upstate New York, en vanalega tekur það bara einn og hálfan tíma að keyra þangað. En eins okkur er einum lagið tókst okkur að villast út um allt. Einhvern veginn tókst okkur að keyra til Syracue í New Jersey. Við nýttum bara tækifærið þar og fengum okkur hamborgara á mjög skemmtilegum stað sem heitir Hamburgers in Heaven. Við fórum svo frá þessum stað södd og í góðri samvisku um að við myndum finna Outletið í einum grænum, en neinei við enduðum í Bergen og Willemhaven í Jersey og vorum svo meiri segja komin aftur til New York á tímabili. Málið var að við vorum með GPS tæki en því ver og miður tókst því ekki að finna staðsetningu Outletsins. Þegar við komum í Outletið þá var klukkan orðin 17.30 og kalt var orðið í veðri. Við löbbuðum þar um og fórum í gluggaleiðangur. En þar sem kalt var úti þá lögðum við af stað aftur heim eftir tvo klukkutíma. Ég náði sem betur fer að stilla GPS tækið á leiðinni tilbaka, en það er ekki þar með sagt að allt gangi eftir þó tækið sé komið í lag. Því tækið tók okkur allt aðra leið tilbaka og áður en við vissum af þá vorum við að komin mjög ofarlega á Manhattan, nánar tiltekið til Harlem og Bronx og klukkan bara að verða níu að kvöldi. Í þessum hverfum er birtan og lýsingin ekki mikil, þannig að það var ekkert að hjálpa til við að koma sér út úr þessum hverfum. En sem betur komum við okkur út eftir skamma stund í dimmunni og héldum heim á leið.

Ég ætla að láta þetta nægja í bili, næstu dagar koma inn fljótlega

Kveðja

Arnar Freyr


Ammli

Í gær tókum við bílaleigubíl í tilefni af afmæli mínu og keyrðum út um allt, eða þangað sem við rötuðum svona næstum því. Við erum með bílinn í þrjá daga og vorum að koma heim í stutt stopp og þess vegna ætla ég að hafa þessa færslu bara stutta, en ég skrifa fljótlega um þessa ævintýraferð okkar. Sjáumst í bili, erum á leiðinni í Aquarium á Coney Island og svo til Long Islands að skoða okkur um og kíkja jafnvel aðeins í "mallin". Heyrumst í bili og ég vil þakka fyrir afmæliskveðjurnar sem ég fékk frá vinum og vandamönnum.

Kv. úr roadtrip-pinu 

Arnar Freyr


Holiday á Íslandi

Ég fékk bréf frá International Office í skólanum í gær þar sem var sagt að ég hafi unnið flugfar fyrir mig og fjölskylduna. Þetta er gert til þess að leyfa erlendum nemum að skjótast heim í fríinu, (Spring Break). Við ætlum ekki að láta okkar eftir liggja og bókuðum strax ferð heim til Íslands. Við fljúgum heim í kvöld og verðum heima í viku, við ætlum að nota tækifærið og skýra minnsta guttann okkar. Þetta verður hrikalega ljúft og við getum ekki beðið eftir að kíkja til Íslands. Ótrúlegt hvað svona hlutir eru skemmtilegir. Annars verðum við hjá mömmu fram á næstu sunnudag, tökum þá morgunflugið heim til NY. Ég verð með símann hennar mömmu í láni og númerið er 699-6355 það væri gaman ef við gætum hitt sem flesta, en þar sem tíminn verður skammur þá vonum við það besta. 

Kveðja frá NY í bili.

Arnar Freyr


Benefit of the doubt

Í gær fór ég í réttinn og eftir nærri þriggja tíma bið þá kom að okkar máli. Niðurgangurinn mætti á svæðið. Hún byrjar strax að æsa sig og vera með læti og ritarinn spurði dómarann eftir smá tíma hvort að þau ættu ekki að fá túlk fyrir hana, þar sem þau skildu ekki baun í því hvað hún var að segja. Æsingurinn og lætin voru svo mikil í henni að maður átti ekki til orð, en tuðran náði að babla út úr sér að hún vildi frestun. Af þeirri ástæðu að vitni hennar gátu ekki mætt þetta kvöld, til allrar hamingju þá sagði dómarinn við hana, I will give you the benefit of the doubt og því þarf ég að fara þarna í þriðja skiptið og þá 25. júní næstkomandi. Alveg ótrúlegt hvernig kerfið virkar hérna, allt í tómu tjóni og læti. Hvað sem maður gerir þá tekur það endalausan tíma og skriffinsku. Ég er samt algjörlega hissa á dómaranum að veita henni þetta án þess að spyrja mig eða fá smá útskýringu á málinu. Hann gaf henni vafann þrátt fyrir að hún hafi sagt að hún hafi ekki komið í fyrra skiptið vegna þess að ekkert bréf hafi borist til hennar um að hún hafi fengið kæru. Alveg ótrúlegt, núna ætla ég að reyna að hætta að hugsa um þetta og fara að njóta vorfrísins.

Ciao frá Matrix

Arnar Freyr


Spring Break

Í dag er seinasti skóladagurinn hjá mér fyrir Spring Brake, og það er meiri segja frí í tímanum í kvöld en þess í stað þarf ég að fara í hópavinnu, sem alltaf jafn yndislega gaman. Við fórum út í gær og veðrið var klikkað gott, 23 stiga hiti og svaka þægilegur vindur. Við fórum niður í park-ið og þar var morandi líf, allir litlu krakkarnir voru eins og lömbin á vorin. Hlupu út um allt og nutu lífsins. Annars er amman að fara heim í dag og það hefur verið mjög ljúft að hafa hana. Við höfum kannski ekki getað leikið mikið við hana út af drengjunum, en hún notaði bara dagana til að slaka á og endurnærast.

Það er eitt sem ég vil koma á framfæri og það er að hvetja hana Sólu til að rita meira inn á bloggið sitt. Hún byrjaði með látum, en tók sér svo pásu og reis svo einn daginn upp úr öskustól og skrifaði heila eina færslu. Endilega ritaðu nokkrar línur frá DanaveldiCool.

Kveðja

Arnar Freyr


St. Patricks day

Í gær var St. Patricks dagurinn haldinn hér í Bay Ridge. Það safnaðist margmenni hérna í götunni fyrir ofan okkur til að taka þátt í skrúðgöngunni. Ég get svarið það að ég hef aldrei séð eins mikið saman safn af sekkjarpípum og í gær. Allur bærinn var litaður grænn og fólk klæddi sig upp í fína græna dressið sitt. Það var mjög gaman að vera vitni af þessu því við vissum ekkert af skrúðgöngunni þegar við fórum út og duttum fyrir tilviljun í hana.

Í dag tók ég upp þráðinn og undirbjó mig fyrir áfrýjunina sem verður á fimmtudaginn og ég verð að segja að ég er kominn með svo mikið ógeð af þessu máli og hvað þá af hundaskítnum, sem ég ætla að fara að kalla "niðurganginn" núna. Ætla að tala um hana í réttarsalnum sem Mrs. Diarrhia, yes your honor, but Mrs. Diarrhia ows us money and she is evil and ugly.

Mamma verður hjá okkur fram á miðvikudag og hefur hún aðstoðað okkur mikið varðandi strákana, og hún var svo góð í gær að vera með þá báða á meðan við fórum út að borða til að halda upp á 8 ára afmæli okkar. Við fórum á ágætis grískan stað, héldum reyndar að hann væri betri en það var reyndar stappað á staðnum út af St. Patricks deginum. Annars áttum ég og dúllan mín mjög góða stund saman og það var langt síðan við fórum eitthvað tvö ein. Við vorum samt svolítið óstyrk útaf drengjunum og ég held að við höfum borðað á methraða, og þegar við vorum að ganga heim þá var dúllan orðin frekar stressuð og vildi hlaupa heim. Þegar við komum heim þá var allt í himna lagi og amman var með fullt control á öllu saman.

Ég var að muna eftir einu skemmtilegu atviki sem kom gerðist hérna fyrir einhverju síðan. Eins og þeir sem þekkja frúna vita að hún er stundum, jafnvel oft með heppnina nokkra metra fyrir aftan sig. Það gerist nefnilega af og til að setningar koma aðeins öðruvísi útúr munninum á henni heldur en hún hugsar sér. Það var þannig að frúin ætlaði sér að segja að Asíbúar væru út um allt hérna og að þeir væru að tröllríða öllu. En það sem kom út úr henni var "Æ þessir Asíbúar eru bókstaflega að ríða öllu hérna"´frúin sagði þetta án þess að blikka og átta sig á þessu. Til þess að bæta við þetta þá var þetta ekki í seinasta sinn sem hún talaði um að "ríða" öllu í stað þess að "tröllríða" öllu.

Kveðja frá Brooklyn

Arnar Freyr


Vor í lofti

Eftir að formlega var greint frá að vor væri komið í New York þá er loksins farið að hlýna. Í gær var frekar kalt, en í dag fannst greinilega að vorið er að koma, hlýr vindur streymdi um loftin blá, fuglarnir sungu og allir voru með bros á vör. Veturinn hefur verið mjög mildur og það byrjaði ekki að kólna fyrr en í janúar. Það má segja að kalt hafi verið í kannski rúman mánuð, í febrúar var hitastigið oft undir frostmarki, þrátt fyrir að vera Íslendingur þá var ég orðinn hundleiður á þessum kulda. Ég get varla ímyndað mér hvernig hefði verið ef ég hefði verið á Íslandi í vetur.

Við skötuhjúin erum farin að plana komu okkar í sumar og stefnum við á að koma heim í lok mai. Við gerum ráð fyrir að vera á Íslandi í tvær til þrjár vikur, eða það fer eftir því hvenær prófin klárast. Það væri mjög gaman að geta hitt sem flesta og ég vona að fólk panti ekki utanlandsferð á þessum tíma, eins og einn sauður gerði sem ég ætla ekki að nefna á nafn hér, ég er ekki ánægður með þig þú sauður þú!!!!!

Það hefur nú ekkert krassandi gerst síðan í seinustu færslu, eða kannski var nú seinasta færsla ekki mjög krassandi. Á morgun þá ætla ég að fara með mömmu í SoHo og jafnvel í Chinatown. Það er alltaf jafn gaman að kíkja í borgina og á mannlífið. Það einna besta við New York er að búðirnar leita ávallt leiða til að hafa útsölur og alltaf er hægt að gera gæðakaup. Annars sem námsmaður þá getur maður ekki oft nýtt sér útsölurnar heldur verður maður að láta sér nægja að kíkja í glugga og láta sig dreyma. Það væri nú asskoti gaman (þá seinna) að koma hérna sem túristi og versla af sér hendina og fá sér góðan Starbucks og Dunkin.

Ég mæli með þeim sem hafa komið til New York og stefna á að kíkja hingað á næstunni að skoða önnur hverfi en miðborgina, jafnvel að kíkja í mallið á Staten Island eða fara í trendy hverfin í Brooklyn. Það getur nefnilega verið mjög gaman að skoða aðra hluti en þessa venjulegu túrista hluti. Einhvern vegin þá verð ég að viðurkenna að mér finnst það ekki mjög gaman, við höfum t.d ekki skoðað frelsistyttuna í nálægð eða farið upp í Empire State. Það er samt spurning hvort að það sé ekki skylda að gera þessa hluti áður en við förum héðan.

Bið að heilsa,

Arnar Freyr


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband