Tvö hundruð sjötíu og átta dagar til jóla

Í tilefni dagsins, (það eru nefnilega tvö hundruð sjötíu og átta dagar til jóla) ætla ég að leggja mig allan fram við að lýsa deginum í dag hjá okkur á svo óhemju þurran og óspennandi hátt.

Dagurinn byrjaði þannig að eldri drengurinn okkar vaknaði, Sonja fór fram með hann og þá rakst hún á mömmu sem var að tannbursta sig. Þær sögðu hvor við aðra góðan daginn og svo knúsuðust þær. Hann Kristófer labbaði fyrir aftan mömmu sína alla leiðina inná bað að tannbursta sig, hann reyndar sagði góðan daginn líka við mömmu, sem er amma hans. Hún Sonja lagaði hafragraut fyrir Kristófer og á meðan hún gerði það þá fékk hún sér Kornfleks. Stuttu seinna fór ég á fætur og ákvað að fá mér líka Kornfleks.

Um kl. 9 fór ég út í búð að versla bleiur fyrir báða strákana og hundadjús fyrir Kristófer. Í apótekinu var hundaskíturinn næstum því búinn að labba á mig, henni brá svo mikið að hún varð mjög flóttaleg á svipinn og hörfaði í burtu, ég var að hugsa um að spyrja hana hvar ég fengi Huggies bleiur í stærð 2, bara svona upp á djókið en ég ákvað að sleppa því og bíða með það þar til eftir 29. mars. Shitturinn, ég er ekki að nenna að skrifa um allan daginn og allar sekúndur, þannig að ég ætla að stytta þetta aðeins.

Ég og Kristófer fórum með mömmu/ömmu í göngutúr um hverfið. Þegar við komum heim þá fór ég að læra og er enn að læra núna fyrir utan þessa færslu. Við horfðum á Idol, spurning um að ég skelli alltaf úrslitunum inn hérna eftir þættina, hvað segiru um það? Ég fór einnig á netið í dag, reyndar sá ég ekkert spennandi, leit inná mbl og verð nú að segja að alltaf verður maður hissa á fréttunum sem komast á forsíðuna. Geta verið alveg hrikalega óspennandi. Vorið kom í New York núna í kvöld eða um kl. 20.30, alla vega var það sagt í sjónvarpinu. Á morgun fer ég í skólann og þá ætla mamma/amma og Sonja að hafa steiktan fisk í matinn að hætti mömmu. Það vill svo skemmtilega til að hún mamma var svo yndisleg að koma með harðfisk fyrir okkur, fannst hann alveg hrikalega góður en svo gerðist það... ég fékk þennan viðbjóðslega ógeðslega bita í gær að ég get ekki hugsað mér aftur harðfisk eða fisk á næstunni. Ég var með þetta ílla lyktandi fiskibragð upp í mér það sem lifði eftir af deginum og finn stundum enn vott af því. Mamma var svo góð að koma með nokkra poka fyrir okkar, en núna verð ég því miður að senda hana með allt tilbaka því ég bara get ekki ímyndað mér að borða þetta aftur, alla vega ekki í bili. Ég lokaði pokanum í gærkvöldi og setti hann inn í frystinn til að minnka lyktina sem var út um allt eldhús.

Svona að lokum þá er ég búinn að tannbursta mig tvisvar í dag, drekka held ég fjórar dósir af diet pepsi, borða 4 bita af Sirius súkkulaði og kannski 15 djúpur. Einnig borðaði ég kornfleks, banana, mest skemmda epli sem ég hef séð, tvær samlokur með kjúklingi sem var afgangur af kjúklingi í gær, pítu með hakki og grænmeti og einn sleikjó. Held að þetta sé upptalið.

Jæja nú spyr ég, tókst mér að skrifa leiðinlega færslu og náðir þú að komast í gegnum hana án þess að geyspa? Get alveg ritað aðra svona færslu á morgunSleeping.

Kveðja frá Brooklyn.

Arnar Freyr


Mánudagur til þvottar......

Jæja ég ætla að byrja enn eina færsluna á því að tala um að ég fór með þvottin í morgun og tók ég mömmu gömlu með. Við skelltum í tvær góðar vélar og náðum að klára allt það dót sem gubbað hafði verið yfir. Annars er kínakonan orðið mikið vinsamlegri við okkur, brosir meiri segja stundum til okkar, og fyrir þremur vikum síðan gleymdum við algjörlega að við ættum þvott hjá henni. Ég rankaði við mér þegar klukkustund var liðin síðan þvotturinn var tilbúinn og ég fékk þetta skemmtilega svitakóf, ég sá fyrir mér þvottinn liggjandi fyrir utan Laundromat-ið og kellingun örkrandi og veinandi. 

Í sakleysi mínu reyndi ég að plata frúna til að ná í þvottinn en það tókst ekki svo ég hljóp eins og fætur streymdu að þvottahúsinu. Þegar ég kom á staðinn þá hló kellingin bara að þessari vitleysu, hún fyrirgaf þetta strax, örugglega bara vegna þess að við vorum nýbakaðir foreldrar. En til að prakkarast aðeins þá sagði ég Sonju allt aðra sögu þegar ég kom heim. Ég sagði að kellingin hefði verið brjáluð og öskrað á mig; I have a business here and you never come back again. Sonja gleypti algjörlega við þessu og var alveg miður sín að fara svona með greyið kellinguna, og hvað þá að þurfa að finna sér annað þvottahús.

Aftur að því þegar ég fór með mömmu í þvottahúsið, hún sagði nefnilega svolítið skemmtilega setningu. Við vorum eitthvað að tala um hæð á fólki og þá segir konan í sakleysi sínu og af fullri alvöru "veistu það mér hefur aldrei fundist ég vera lítil" ég bara missti andlitið. Hvernig getur fólk lifað í svona hrikalegri blekkingu, konan er varla meter á hæð, nær varla niður á jörð og hefur meiri segja búið alla sína ævi með fólki sem er nánast meter hærri en hún. Hún fór eitthvað að afsaka þetta með að segja að hún ynni á kvennavinnustað og þar væru bara litlar konur. Talaði meiri segja um að henni fyndist ein kona sem vinnur með henni algjör písl, en svo kom á daginn að þær væru jafn lágvaxnar.

Kristófer Dagur er ekki orðinn alveg frískur, hann er enn slappur og kastaði upp áðan og er þá búinn að vera að þessu í nærri fjóra daga. En sem betur fer hefur farið lítið fyrir uppkastinu seinustu tvo sólahringa. Við vonum innilega að drengurinn verði fullfrískur sem allra fyrst. Jónatan er enn við sama heygarðshornið og er orðinn í laginu eins og körfubolti af stærðinni 7. Af okkur dúllunni er allt gott að frétta fyrir utan veikindi Kristófers, en því ver og miður þá gátum við ekki haldið upp á 8 ára afmæli okkar í seinustu viku vegna prófa og veikinda. Þannig að ég vil bara segja elsku ástin mín, þú ert engillinn minn og ég elska þig meira en allt annað. Ég hlakka mikið til að halda upp á daginn með þér og hvern einasta dag eftir það. Þú ert mín stoð og stytta og algjörlega besta manneskja í heiminum. Ég elska þig að eilífu, þinn Arnar Freyr.

Fyrir ykkur hina þá segi ég bara bless í bili.

Arnar Freyr

 


Hundaskíturinn!!!!!!

Á föstudaginn var fengum við bréf sem sagði að hundaskíturinn hafi áfrýjað málinu og því þarf ég að fara í réttarsalinn aftur. Málið verður tekið fyrir 29. þessa mánuðar og geri ég ráð fyrir að hundaskíturinn mæti í áfrýjunina og að ég þurfi  að fara með málið í dómssal fyrir framan dómara.

Annars ætla ég að hætta núna og hvetja þig til að rita í gestabókina eða setja inn fleiri athugasemdir.

Arnar Freyr


Prófin búin

Jæja núna voru prófin að klárast hjá mér og það má með nú sanni segja að gamanið hafi verið stutt. Ég var nýkominn úr prófinu þá hringir Sonja og tilkynnir mér að elsti drengurinn sé kominn með gubbupestina. Og endirinn á þessari törn er ekki alveg eins óskað var, í stað þess að setja með einn kaldann þá erum við feðgarnir í einu herberginu og mæðginin í öðru. Ég er með Kristófer að passa að hann smiti ekki Jónatan og svo auðvitað að reyna að láta honum líða sem best. En ég verð að viðurkenna að það er alveg hrikalegt að horfa á þessi litlu kríli þegar þau eru veik og hvað þá þegar þau eru með svona mikla vanlíðan. Ég vona svo innilega að þetta vari stutt og að yngsti meðlimurinn fái ekki þessa pest. Núna er Kristófer sofnaður og það væri frábært ef hann myndi bara sofa þetta úr sér, má alltaf vona það besta.

Annars er mamma að koma á sunnudaginn og ætlar hún að vera hjá okkur í 10 daga. Hún er víst búinn að lofa því við Kristófer að vera mikið mikið í boggabó með honum, og hann er alltaf að tala um að "amma Hóna boma boggabó" Ég ætla að láta þetta nægja í bili frá "buggubælinu"

Arnar Freyr


New York trend

Eins og gerist í hverri heimsálfu, landi, bæ, skóla, vinum og fjölskyldu þá myndast einhverskonar trend. En trend er skilgreint sem tíska sem myndast í ákveðnum menningarhóp, og núna hefur skapast hrikalega merkilegt trend hérna í New York. Það er nefnilega þannig að það þykir afskaplega cool og trendy að ræna og lemja gamlar konur og því eldri sem þær eru því fleiri rokkstig færðu. Það hefur gerst hérna undanfarið að aðili eða aðilar hafa elt þessar skvísur uppi og rænt þær með þessum afleiðingum. Og mest trendy atvikið sem ég hef séð var þegar maður réðst á eina skvísu sem var ekki nema 102 ára og til að bæta gráu ofan á svart þá var hún í göngugrind. Þessi maður sem ég kýs að kalla "trendsetterinn" elti greyið skvísuna að heimili hennar og þegar hún var að fara að opna inn til sín þá kýlir trendsetterinn hana í andlitið með þeim afleiðingum að hún hrynur í gólfið með látum og fær grindina yfir sig. Ég verð nú að segja að þetta er heitt trend í dag og ekki vitlaust að vera soldið trendy og rupla eina gamla hrukku. Það er nefnilega þannig að ég og dúllan mín eigum 8 ára afmæli á morgun og því ekki vitlaust að ná sér í smá auka aur til að versla eitthvað sætt handa henni.

Annars verður nú ekki mikið um veislur á morgun þar sem ég er að fara í próf á fimmtudaginn og því verðum við að gera eitthvað skemmtilegt á föstudaginn. Ætli við fáum okkur ekki gott að borða jafnvel kínverskt ef dúllan er til í það, og auðvitað verður opnuð ein rauð og kannski kaldur Bud eða Miller. Jæja núna ætla ég að koma mér aftur í lærdóminn bið að heilsa ykkur.

Arnar Freyr


"Þetta eru bara lítil börn og þau vita ekki neitt"

Núna er dagurinn að verða á enda og við fögnuðum í gær mánaðarafmæli Jónatans. Það var mikið um gleði og buðum við öllum í húsinu og öllum vinum okkar hérna í afmælið. Það var alveg yndislegt hversu mögnuð stemmningin var og hversu margir komu. Það má með sanni segja að ekki vantaði pakkana. Við erum alveg staðráðin í að gera þetta á öllum mánaðarafmælum hans Jónatans eða þangað til hann verður eins árs, eins og ég nefndi þá er ekki er hægt að neita öllum þessum pökkum.

Það er svo komið á hreint að við munum vera hérna í New York í sumar, fyrir utan c.a tvær sem við komum heim til Íslands. Ég var nefnilega að fá sumarvinnu hérna hjá Ferðamálaráði og mun ég starfa í markaðsmálunum hjá þeim. "Spólum aðeins tilbaka, ekki hélstu virkilega að við héldum upp á mánaðarafmæli Jónatans?????" Jæja aftur þá að New York, já ég mun byrja að vinna hjá þeim eftir að við komum aftur út, stefnum á að fara heim 4. júni og svo aftur út tveim vikum eftir. Ég er mjög spenntur fyrir þessu starfi því mjög mikið er í gangi hérna varðandi markaðssetningu á Íslandi og gaman verður að kynna land og þjóð fyrir kananum.

Af okkur er allt ljómandi að frétta, fyrir utan svefnleysi og annasama daga. Það gengur svona ágætlega að samræma allt þetta og skólann, en ég er að fara í miðsvetrarprófin í næstu viku. Bíð spenntur eftir að klára þessa viku því þá er ennþá styttra í "Spring Break". Ég mun vera í fríi milli 2rs og 10unda apríl. Ætli maður nýti ekki þá daga í að lesa og gera verkefni sem ég á að skila í lok annar. Í einu fagi var ég í hópaverkefni. Ég andsk. þoli ekki þessi leiðinlegu hópaverkefni, ég lenti í svo frábærum hóp að ég á ekki til orð. Eftir dágóðan tíma við að reyna að koma hópnum saman með hugmyndir og þess háttar þá ákvað ég að draga mig úr hópnum, þannig að núna er ég einn að gera hópaverkefni, semsagt ég er einn í hóp. Þannig að það er aðeins meira að gera en annars reddast þetta allt og verð ég feginn þegar ég klára verkefnið og skila því í mai.

Sonja er spræk eins og lækur og verð ég að viðurkenna að hún er ótrúlega dugleg gagnvart börnum. Á meðan drengirnir reyna á þolinmæði mína þá sprettur ekki blóð í vöngum hennar, og er ég alveg stundum að missa mig í óþolinmæðinni, þá bara neinei er mín ekki að hlægja af mér fyrir þetta og segir bara með sínum hundaaugum "þetta eru bara lítil börn og þau vita ekki neitt" Ég þoli ekki þessa setningu, en get ekki neitað fyrir það að þetta er svona frekar rétt og því loka ég bara mínum munni og brosi.

Drengirnir eru að stækka þá aðallega sá minnsti en hann hækkaði um 6 cm á sínum fyrsta mánuði og Kristófer hækkaði um 1 cm, Svo má ekki gleyma Sonju en hún er alveg að fara að ná draumahæðinni 1.70 cm. Gefum henni þrjá mánuði í viðbót og þá gæti allt gerst. Ég hef ekkert stækkað í þessum mánuði en ég stefni á að gera það á afmælinu mínu og kannski alla þá viku á eftir.

Kveðja,

Arnar Freyr


Babys "r" us

Í tilefni dagsins fékk ég gestapenna til að rita nokkrar setningar fyrir mig. Það er engin önnur en fegurðardísin, blómamærin og mamman hún Sonja "sæta" Frehsmann. Hún skýrði færsluna: Babys "r" us. En ég vil minna á að skoðun Sonju endurspeglar ekki skoðun þjóðarinnar, og hún mun alfarið bera ábyrgð á sínum skrifum. Ef þú ert ekki sátt(ur) við þetta þá getur þú sent bréf á þjónustudeildina, en netfangið er consumerservice@arnarfreyr.com

Hvað skal segja eða réttara sagt skrifa þegar maður er beðin um að vera gestapenni á svona háttvirtri bloggsíðu? Að sjálfsögðu verður maður að gera sitt  besta og reyna að skrifa eitthvað framúrskarandi frumlegt og spennandi.  Og hvað á þá tveggja barna húsmóðir í stóra eplinu að skrifa um. Eftir þónokkrar vangaveltur kom aðeins eitt eða eiginlega tvennt til greina sem mér þótti þess vert að skrifa um.  Það eru strákarnir okkar þar sem þeir eiga nú allan okkar hug og tíma þessa daganna. Ok ég viðurkenni kannski ekki það frumlegasta sem hægt er að skrifa um en að mínu mati það langskemmtilegasta.  Hérna kemur því lýsing á hefðbundnum degi hjá okkur stórfjölskyldunni.  Vil koma því strax á framfæri að eftirfarandi lesning gæti reynst einhverjum hin fínasta getnaðarvörn en ég hugsa nú að fleirri taki okkur Adda Hrey nú sem fyrirmynd og fari að hrúa krílum niður!!!

Kl: 6:00 byrjar minnsti snáðinn á heimilinu að gefa frá sér hin ótrúlegustu dýrahljóð og troða höndunum af krafti upp í sig.  Já núna er að skella litla mjólkursvelgnum á brjóstið og vona að stærri snáðinn vakni ekki upp við þessi hljóð og vona líka að sá minnsti sofni aftur eftir að hafa belgt sig út.  En þetta gerist aldrei...ef sá litli sofnar aftur þá hefur hinn stærri vaknað og öfugt!  Kristófer passar svo upp á að koma ÖLLU liðinu fram úr með tilheyrandi skipunum og svo er hafragrautur á matseðlinum fyrir allt liðið.   Eftir dýrindis máltíð reynir húsbóndinn á heimilinu að koma sér í lærdómsgirinn og ég fer í það að sinna minni húsbóndunum á heimilinu - óhætt að segja að ég sé umvafinn karlmönnum núna.  Verð að viðurkenna að ég hef treyst talsvert á TV núna til þess að að hafa ofan af fyrir Kristófer - á mjög erfitt með að hlaupa á eftir honum þegar að hinn hangir á brjóstinu.   Ef að þvotturinn er farinn að flæða fram úr þvottakörfunni skellir annað hvort ég að Arnar Freyr okkur út til kinadömunnar hérna á 3 avenue og skellum í tvær vélar.  Það er óhætt að segja að þvottadagar eru ekki vinsælir hjá húsbóndanum.  Hins vegar finnst mér þetta hin ágætasta tilbreyting að komast út og sjá aðrar mannverur.  Dagurinn einkennist svo meira og minna af bleyjuskiptum á tveimur litlum bossum, brjóstagjöf, boltaleik þegar að sá minnsti sefur, og svo fataskiptum þegar að sá minnsti hefur drukkið yfir sig og gubbar yfir sig og aðra fjölskyldumeðlimi.  Já það er fjör á þessu heimili og lífið gæti ekki verið betra.

Um daginn tilkynnti húsbóndinn mér það að honum langaði ekki í fleirri börn og ég varð auðvitað sármóðguð svona nýbökuð mamman.   Hvernig er hægt að segja svona og horfa siðan framan í þessi tvö litlu andlit?   Reyndar veit ég upp á hár að það er svefnleysið sem er að hafa þessi áhrif á manninn og rugla hann svona allsvakalega í ríminu.  Ég er ekki í nokkrum vafa um að þegar rútína verður kominn á minnsta snáðann(vonandi sem fyrst) og húsbóndinn fer að fá sinn hefðbundna svefn að þá breytist hljóðið í honum.  Veit enn betur að þegar að minnsti snáðinn fer að segja pabbi og horfa með bláu augunum á húsbóndann að þá verði allt þetta tal um að "eignast ekki fleirri börn" algjörlega gleymt.  Já Arnar Freyr er nefnilega mjúkur maður þó að hann myndi seint viðurkenna það.  Það er bara eitthvað með karlmenn ef þeir missa korter úr nætursvefn að þá er eins og heimurinn sé að farast - já það er bara svefnleysið sem er að rugla svona í húsbóndanum....

Kveðja frá NY

Frúin


Diaper York

Það hefur nú ekki mikið farið fram seinustu daga hjá okkur nema bleiuskipti og allt það sem fylgir tveimur litlum gaurum. Það má með sanni segja að dagar okkar eða sólahringurinn hefur lengst töluvert. Yngsti meðlimurinn sefur þegar honum hentar og ekki mikið við þvi að gera eins og er, og svo er það næst yngsti og þriðji elsti meðlimurinn sem hefur tekið upp á því að vakna kl. 6.30 á morgnana. Ég get ekki hrópað húrra fyrir þessu uppátæki, því ef ég er svefnlítill í nokkra daga þá má alveg segja að það fari aðeins, kannski örlítið inná pirrutaugarnar mínar. Ég reyni bara að drekka sem mest kaffi og Pepsi til að fá nóg koffein og það gengur svona upp og ofan. Annars ætla ég að koma mér í háttinn og segi því bara góða nótt.

NY-Kveðja

Arnar Freyr


Afmæli í dag

Svo heppilega vildi til að einmitt á þessum degi fyrir 29 árum kom Prófessorinn, Hugsuðurinn, og Slátrarinn hann Ingi Björn í heiminn. Ingi Björn ólst upp í sveitinni á Selfossi með vinum sínum Rúberti sem var svín og og henni Anítu sem var víst svaka flott læða.

Annars hefur hann unnið sér margt til frægðar og má þar meðal annars nefna að hann var í spurningaliði MS í Gettu Betur á sínum tíma, og honum hefur tekist að slíta krossbönd í fæti við mjög svo óvenjulegar aðstæður. Sem dæmi þá sleit hann einu sinni krossbönd þegar hann sat og las bókina "1001 hugsun til að hugsa meira". Þessi drengur er mjög ljúfur en samt algjör slátrari, þess má geta að á hverjum sunnudegi þá sér hann ávallt aleinn um að torga heilu lambalæri, en þetta hefur verið siður hjá honum í 17 ár. Eins og segir þá er hann mikill hugsuður, hann hefur víst alltaf einn vegg hjá sér bláann og á hverjum degi þá sest hann á hækjur sér fyrir framann vegginn og hugsar og hugsar, alveg þangað til hann hefur tæmt hugann. Þetta gerir hann til að losa allt aflið og strauminn sem er í höfðinu á sér.

Ingi Björn á sínum yngri árum

Til hamingju með daginn og njóttu hans í botn, megi gæfa og hamingja fylgja þér.

Arnar Freyr, frúin og krakkarnir


Sumarfílingur í New York

Vonandi verður stemmningin áfram jafn góð og hún hefur verið í dag hérna í NY. Veðrið og vorfílingurinn er út um allt. Annars voru tengdó að fara héðan í gær, og áttum við mjög góðan tíma með þeim. Það má með sanni segja að þau hafi dekrað við drengina og þá sérstaklega við Kristófer. Ef drengurinn hefði bankað upp á hjá þeim fjögur um nóttina og beðið þau að koma í boggabó þá hefði þau ekki verið lengi að snúa sér við í rúminu og hoppa á fætur. En það er ekki hægt að neita fyrir það að þau dekruðu mikið við okkur líka og það má með sanni segja að við nutum við þess í botn :)

Núna er komin helgi hérna hjá okkur og við ætlum að fá okkur góðan mat í kvöld og hafa það gott og svo er stefnan sett á að kíkja út á morgun með alla krakkana og herja á miðbæinn hérna í Bay Ridge. Ég set meira inn um helgina.

Kveðja,

Arnar Freyr, frúin og krakkarnir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband